Yfirlæknir gjörgæslulækninga í svæfinga- og gjörgæslulækningum
Starf yfirlæknis gjörgæslulækninga í svæfinga- og gjörgæslulækningum Landspítala er laust til umsóknar. Við leitum eftir öflugum leiðtoga með faglega hæfni til að byggja upp og leiða þjónustu við sjúklinga, mannauð og rekstur. Yfirlæknir fer með forystu fyrir þjónustu við sjúklinga á sínu sérsviði, þróun faglegrar þjónustu, umbreytingarstarfi og gæða- og öryggismálum. Hann stuðlar að teymisvinnu innan deildar í samvinnu við aðra stjórnendur og samstarfsaðila.
Yfirlæknir hefur þríþætta ábyrgð stjórnanda, þ.e. faglega ábyrgð, ábyrgð á mannauði og rekstrarábyrgð. Auk þess gegnir yfirlæknir mikilvægu hlutverki í kennslumálum og uppbyggingu vísindastarfs
Yfirlæknir starfar í nánu samstarfi við forstöðulækni, framkvæmdastjóra sviðs og framkvæmdastjóra lækninga og er þátttakandi í stjórnendateymi skurðlækninga-, skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu. Næsti yfirmaður er forstöðulæknir svæfinga- og gjörgæslulækninga.
Starfið veitist frá 1. janúar 2025 eða eftir samkomulagi og er starfshlutfall 100%. Gerð er krafa um helgun í starfi yfirlæknis.
Í svæfinga- og gjörgæslulækningum Landspítala starfa rúmlega 40 sérfræðilæknar og um 20 sérnámslæknar í þverfaglegu teymi og í nánu samstarfi við aðrar fagstéttir spítalans.