Hjúkrunarfræðingar í nýtt öldrunargeðteymi á Landspítala
Hefur þú áhuga á öldrunar- og geðhjúkrun?
Við leitum að metnaðarfullum og framsæknum hjúkrunarfræðingum til að taka þátt í uppbyggingu og þróun á nýju þverfaglegu öldrunargeðteymi á Landspítala.
Öldrunargeðteymið verður eitt af sérhæfðum göngudeildarteymum á meðferðareiningu lyndisraskana innan geðþjónustu Landspítala en mun vinna náið með öðrum deildum spítalans þar sem aldraðir dvelja. Meginhlutverk teymisins verður að veita einstaklingsmiðaða þjónustu til aldraða einstaklinga með geðraskanir og aðstandendum þeirra.
Þar sem um nýjar stöður er að ræða er rík áhersla lögð á sjálfstæði í starfi, áhuga á þátttöku í uppbyggingu og mótun nýrrar þjónustu, sem og getu til að vinna í þverfaglegu teymi. Starfið býður uppá mikla möguleika til að vaxa í starfi og móta og þróa nýtt starf og nýtt teymi.
Geðþjónustan leggur áherslu á að styðja við vöxt og þróun í starfi, meðal annars með því að bjóða upp á handleiðslu og starfsþróunarár fyrir bæði nýja og reynda hjúkrunarfræðinga.
Starfshlutfall er 80-100%, unnið er í dagvinnu og er upphaf starfa samkomulag.