Hjúkrunardeildarstjóri á Laugarási meðferðargeðdeild
Laus er til umsóknar staða hjúkrunardeildarstjóra á Laugarási meðferðargeðdeild
Leitað er eftir kraftmiklum hjúkrunarfræðingi með reynslu af stjórnun og hæfni til að leiða árangursríka þjónustu við sjúklinga, efla notendamiðaða nálgun, umbótastarf, öryggismál og uppbyggingu mannauðs í nánu samstarfi við aðra stjórnendur og starfsfólk. Leitað er að einstaklingi með hæfni til að leiða þverfaglega teymisvinnu, er hvetjandi og stuðlar að jákvæðum starfsanda. Hjúkrunardeildarstjóri er yfirmaður hjúkrunar á Laugarási, stýrir daglegum rekstri og er leiðandi um fagleg málefni deildarinnar. Hjúkrunardeildarstjóri starfar í nánu samstarfi við framkvæmdastjóra, forstöðuhjúkrunarfræðing, yfirlækni deildar og aðra stjórnendur og samstarfsfólk í geðþjónustu.
Laugarásinn er sérhæfð deild fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóm á byrjunarstigi. Á deildinni eru 8 sólarhringspláss en að stærstum hluta er starfsemi deildarinnar dagdeild þar sem um 100 einstaklingar sækja þjónustu. Þar er unnið fjölbreytt og sérhæft starf í snemmíhlutun geðrofssjúkdóma fyrir einstaklinga á aldrinum 18-35 ára.
Undir deildina heyrir starfsemi Batamiðstöðvar sem staðsett er á Kleppi svo og Virkniseturs sem staðsett er í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut. Fjölbreytt starfsemi er rekin þar með virkri aðkomu iðjuþjálfa, íþróttafræðinga svo og annarra starfsstétta.
Hjúkrunardeildarstjóri hefur þríþætta ábyrgð sem stjórnandi, þ.e.a.s. faglega ábyrgð, starfsmannaábyrgð og fjárhagslega ábyrgð. Starfshlutfall er 100% og veitist starfið frá 1. febrúar 2025 eða eftir nánara samkomulagi. Næsti yfirmaður er forstöðuhjúkrunarfræðingur kjarna 1 í geðþjónustu.