

Framkvæmdastjóri - Bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu
Landspítali auglýsir laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu frá og með 1. júlí 2025.
Á sviðinu er veitt bráðaþjónusta vegna veikinda og slysa, almenn og sérhæfð lyflækningaþjónusta, auk víðtækrar endurhæfingarþjónustu.
Bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónusta Landspítala er umsvifamesta svið spítalans þegar horft er til legudeildastarfsemi og ferlistarfsemi spítalans. Á sviðinu er einstök þekking og reynsla af viðbrögðum við hvers kyns vá og tekur starfsfólk sviðsins þátt í viðbragði við slysum, eitrunum, farsóttum og annarri heilsutengdri vá í samfélaginu. Framkvæmdastjóri er leiðandi í að móta stefnu fyrir þjónustuna með hliðsjón af þörfum sjúklinga, aðstandenda, stefnu, gildum og starfsáætlun Landspítala. Þá leiðir framkvæmdastjóri í samvinnu við aðila á skrifstofu forstjóra og NLSH, undirbúning sviðsins fyrir flutning starfseminnar í nýjan meðferðarkjarna og nýtt húsnæði að Grensási.
Hlutverk framkvæmdastjóra er að þróa og samræma þjónustu við sjúklinga innan sviðsins og vinna að samhæfingu við aðra starfsemi spítalans í samræmi við stefnu og starfsáætlun Landspítala. Framkvæmdastjóri leiðir teymi öflugra stjórnenda sem ásamt yfirlæknum sérgreina, deildarstjórum legudeilda, þjálfurnareininga og talmeinafræði, hafa það sameiginlega verkefni að samhæfa, efla og þróa þjónustu í þágu sjúklinga sem veitt er innan sviðsins á öruggan, faglegan og hagkvæman hátt.
Leitað er að kraftmiklum faglegum leiðtoga með klínískan bakgrunn og mikla rekstrar- og stjórnunarreynslu, sem hefur brennandi áhuga á að byggja upp sterka liðsheild og framfylgja stefnu, markmiðasetningu og framtíðarsýn spítalans.
Framkvæmdastjóri verður hluti af forystu Landspítala sem hefur það markmið að koma stofnuninni í fremstu röð á Norðurlöndum. Framkvæmdastjóri heyrir beint undir forstjóra og situr í framkvæmdastjórn spítalans sem ber ábyrgð á stefnumótun og rekstri hans.
Starf framkvæmdastjóra er 100% starf.































































