

Kennslustjóri í seinni hluta sérnáms í lyflækningum
Laust er til umsóknar hlutastarf kennslustjóra seinna stigs sérnáms í almennum lyflækningum við Landspítala frá 1. júní 2025 eða skv. samkomulagi. Kennslustjóri er leiðtogi og fyrirmynd og ber ábyrgð á innihaldi, gæðum og framkvæmd seinna stigs sérnáms í lyflækningum auk víðtækrar leiðandi aðkomu að starfsmannamálum sérnámslækna. Meginhlutverk er að tryggja öflugt sérnám og stuðla þannig að árangursríkum lækningum, góðri þjónustu og öryggi sjúklinga ásamt viðeigandi mönnun greinarinnar til framtíðar. Þá gegnir kennslustjóri einnig mikilvægu hlutverki í uppbyggingu og framkvæmd vísindastarfa og umbótavinnu.
Kennslustjóri seinna stigs vinnur í nánu samstarfi við kennslustjóra fyrra stigs sérnáms í lyflækningum, framkvæmdastjóra, forstöðulækna, yfirlækna, umsjónarsérnámslækna og annað samstarfsfólk. Kennslustjóri hefur aðgang að skrifstofuaðstöðu innan lyflækninga og skrifstofu sérnáms og starfar náið með skrifstofustjóra og verkefnastjórum eftir því sem við á. Næsti yfirmaður er yfirlæknir sérnáms. Lesa má nánar um hlutverk kennslustjóra í .
Leitað er eftir sérfræðilækni með víðtæka reynslu og hæfni til að vera í forystu lyflækningum. Um er að ræða 20% starfshlutfall.


























































