

Aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á bráðalegudeild geð- og fíknisjúkdóma
Meðferðareining geð- og fíknisjúkdóma auglýsir laust til umsóknar starf aðstoðardeildarstjóra á bráðalegudeild geð- og fíknisjúkdóma. Við leitum að öflugum hjúkrunarfræðingi í fjölbreytt, krefjandi og skapandi starf á góðum vinnustað.
Markhópur einingarinnar eru einstaklingar með tvíþættan vanda; alvarlega geðsjúkdóma og alvarlegan vímuefnavanda. Áherslur í starfi einingarinnar eru meðal annars skaðaminnkun, batamiðuð hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtal og geðlæknisfræði. Undir meðferðareininguna heyra bráðalegudeild, dagdeild, göngudeild, vettvangsgeðteymi og afeitrunardeild ólögráða ungmenna.
Bráðalegudeild geð- og fíknisjúkdóma er 16 rúma sólarhringsdeild. Sérhæfing deildar liggur í að sinna fólki með alvarlegan tvíþættan vanda sem þarfnast inniliggjandi meðferðar. Meginviðfangsefni deildarinnar eru fjölbreytt og það er hratt flæði á deildinni. Á deildinni starfar samhentur hópur og það er mikil þverfagleg samvinna. Aðstoðardeildarstjóri á bráðalegudeild er hluti af stjórnendateymi sem ber ábyrgð á sólarhringsþjónustu. Hann leiðir daglegt starf deildarinnar og kemur að forystu í hjúkrun þvert á meðferðareininguna.
Um er að ræða spennandi og gefandi starf þar sem unnið er í þverfaglegum teymum. Hjá okkur er góður starfsandi, starfsemin er í stöðugri framþróun og unnið er að fjölbreyttum umbótaverkefnum.
Starfshlutfall er 100%. Starfið er laust frá 1. apríl 2025 eða eftir samkomulagi. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Birnu Óskarsdóttur, hjúkrunardeildarstjóra.






























































