

Viltu starfa við svefnrannsóknir og meðferð svefnsjúkdóma?
Við sækjumst eftir drífandi einstaklingi til að sinna spennandi starfi svefnmælifræðings á Svefnmiðstöð Landspítala.
Miðstöðin sinnir greiningu og meðferð svefntengdra sjúkdóma. Starfið er undir leiðsögn sérhæfðs starfsfólks og sérfræðilækna samkvæmt því sem best gerist og í samræmi við alþjóðlega staðla. Stuðningur við sjúklinga er hvoru tveggja á Landspítala sem og á landsbyggðinni. Mikilvægi svefns á heilsu er mikið rannsakað og áhrifin víðtæk og mikilvægt að umsækjandi hafi áhuga á lífeðlisfræði, tækni, þjónustu, heilsu og vellíðan fólks. Námstækifæri eru til staðar tengt svefni og boðið verður upp á stuðning til að ná fullgildu svefntækninámi, Registered Polysomnographic Technologist (RPSGT).
Á deildinni starfar þverfaglegur hópur fagfólks og lagt er upp úr teymisvinnu sérfræðilækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, heilbrigðisverkfræðinga, ritara o.fl.
Við tökum vel á móti nýju samstarfsfólki og veitum góða einstaklingshæfða aðlögun. Æskilegt að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst eða eftir samkomulagi. Unnið er í dagvinnu en hluti starfsins eru vaktir á kvöldin og næturvaktir.






























































