

Aðstoðardeildarstjóri á sýklarannsóknahluta sýkla- og veirufræðideildar
Laus er til umsóknar staða aðstoðardeildarstjóra á sýklarannsóknahluta sýkla- og veirufræðideildar. Við leitum eftir metnaðarfullum leiðtoga með áhuga á stjórnun ásamt gæða- og umbótastarfi og sem er tilbúinn að takast á við krefjandi verkefni á deild sem er í stöðugri þróun.
Deildin skiptist í 3 deildarhluta: sýklarannsókn, veirurannsókn og ætagerð. Deildin veitir fjölbreytta og umfangsmikla þjónustu allan sólarhringinn við greiningar sýkinga af völdum baktería, veira, sveppa og sníkjudýra, auk rannsókna, ráðgjafar og kennslu heilbrigðisstétta í sýkla- og veirufræði. Á deildinni starfa um 90 einstaklingar, flestir með sérhæfingu á sviði lífeinda- og náttúrufræði ásamt sérfræðilæknum og sérhæfðu starfsfólki. Boðið er upp á starf á skemmtilegum vinnustað þar sem ör þróun er í rannsóknum og gæðastarfi.
Aðstoðardeildarstjóri heyrir undir deildarstjóra sýkla- og veirufræðideildar. Starfshlutfall er 100% eða skv. samkomulagi. Upphaf starfs er samkomulag en æskilegt að umsækjandi geti hafið störf ekki seinna en í júlí 2025.





























































