Hjúkrunarfræðingur í meltingarteymi
Laust er til umsóknar starf hjúkrunarfræðings í meltingarteymi Landspítala sem staðsett er á almennri göngudeild 10E við Hringbraut.
Í meltingarteyminu starfar öflugur hópur fagfólks sem vinnur af miklum áhuga við að efla og þróa þjónustu við sjúklinga með langvinna meltingarsjúkdóma. Teymið sinnir hjúkrunarmóttöku og sérhæfðu eftirliti sjúklinga, auk þess að styðja við umönnun skjólstæðinga sinna ef þeir leggjast inn á deildir spítalans. Einnig sinnir teymið sjúklingum með IBD, næringarslöngu/hnappa, krabbamein, skorpulifur og aðra meltingarfærasjúkdóma. Þá er hluti starfseminnar á innrennslismóttöku, þar sem m.a. eru gefin líftæknilyf. Starfið er því afar fjölbreytt og krefjandi og gefur mikla möguleika til starfsþróunar.
Á göngudeild 10E eru einnig sérhæfðar teymismóttökur á sviði fleiri sérgreina, t.d. kviðarholsskurð- og stómateymi og ígræðslugöngudeild. Þá fer þar fram undirbúningur aðgerðasjúklinga og innskrift svæfingar. Á deildinni er markvisst unnið að umbótum og framþróun, en þar starfar öflugur hópur reyndra hjúkrunarfræðinga og einkennist vinnuandinn af samvinnu, metnaði og góðum liðsanda.
Hér er tækifæri fyrir framsækinn og metnaðarfullan hjúkrunarfræðing sem hefur áhuga á að vinna í teymi en einnig sjálfstætt og af frumkvæði.
Í boði er einstaklingsmiðuð aðlögun undir leiðsögn reyndra hjúkrunarfræðinga. Starfshlutfall er 80-100% dagvinna og er starfið laust nú þegar eða eftir nánara samkomulagi.
Vinnuvika starfsfólks í fullri dagvinnu er nú 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.