Verkefnastjóri félagsráðgjafaþjónustu á barna- og unglingageðdeild
Við leitum að leiðtoga í samhentan hóp félagsráðgjafa á barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL). Í boði er fjölbreytt og líflegt starf og tækifæri til að öðlast víðtæka þekkingu innan fagsins og margvíslegum möguleikum á starfsþróun. Á deildinni er markvisst unnið að umbótum og framþróun. Margvísleg tækifæri eru til að dýpka þekkingu sína í greiningu og meðferð algengra geðraskana.
Um er að ræða fullt starf fyrir reyndan félagsráðgjafa sem hefur áhuga á að vera leiðtogi og að leiða gæðastarf ásamt því að brenna fyrir málefnum barna og unglinga með flókinn og samsettan geðrænan vanda og fjölskyldna þeirra. Verkefnastjóri félagsráðgjafa heyrir undir deildarstjóra faghópa á barna-og unglingageðdeild og er litið svo á að fagstjórn sé hluti af starfi og eigi ekki að taka meiri tíma en sem nemur 20% af vinnutíma viðkomandi. Það sem út af stendur verður nýtt í klínísk verkefni.
Klínísk verkefni félagsráðgjafa fela í sér fjölbreytt verkefni sem snúa að stuðningi við börn með geðraskanir og fjölskyldur þeirra. Stór hluti af verkefnum félagsráðgjafans er að meta stöðu máls hvað varðar félagslega stöðu barnsins og fjölskyldunnar, tekur þátt í samtali við fjölskyldur barnanna um næstu skref í meðferð, tengir fjölskylduna við þau þjónustukerfi sem þurfa að koma að málum fjölskyldunnar og situr fundi því tengt. Náið samstarf er við önnur teymi á deildinni og þjónustuteymi barnsins utan deildarinnar og er heildarsýn félagsráðgjafa mikilvæg í að meta næstu skref í þjónustu við barnið. Viðkomandi þarf að vera í stakk búinn að vinna hratt og örugglega, eiga auðvelt með samstarf við ólíka aðila og geta hlaupið til í ný verkefni eftir því sem þörf er á. Möguleiki er á frekari þjálfun í meðferðarvinnu eftir því sem við á.
Barna-og unglingageðdeild samanstendur af tveimur deildum á Landspítala, legudeild og göngudeild. Þar er veitt sérhæfð og fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta við börn sem þarfnast sjúkrahúsþjónustu vegna geðræns vanda. Unnið er í þverfaglegum teymum og er mikil samvinna höfð við fagaðila í nærumhverfi.
Á BUGL starfa um 100 einstaklingar í fjölskylduvænu starfsumhverfi. Starfsaðlögun er markviss og einstaklingshæfð og miklir möguleikar eru til starfsþróunar og sérhæfingar. Þjónustan er í stöðugri framþróun og kapp er lagt á notendamiðaða þjónustu og styttingu biðtíma.