

Sérhæfður aðstoðarmaður iðjuþjálfa í geðþjónustu
Iðjuþjálfun í geðþjónustu vill ráða öflugan einstakling til starfa sem aðstoðarmann. Starfið felur í sér fjölbreytt verkefni sem unnin eru undir leiðsögn iðjuþjálfa. Áhugavert starf sem býður upp á fjölda tækifæra.
Vinnan fer fram m.a. á deildum og vinnustofu iðjuþjálfunar. Iðjuþjálfar í geðþjónustu Landspítala vinna eftir hugmyndafræði líkansins um iðju mannsins (MOHO). Þeir vinna í ýmsum sérhæfðum teymum s.s. þunglyndis- og kvíðateymi, átröskunarteymi, áfallateymi, geðrofsteymi og á sólarhringsdeildum s.s. endurhæfingargeðdeild, réttar- og öryggisgeðdeild og meðferðargeðdeild Laugarási. Geðþjónustan leggur áherslu á að stuðla að auknum lífsgæðum einstaklinga og hvetur til ábyrgðar á eigin hegðun og lífsstíl. Meðferðin byggir m.a. á fræðslu og stuðningi til að auka virkni innan sem utan spítalans.
Hjá iðjuþjálfun á Landspítala starfa yfir 30 iðjuþjálfar og aðstoðarmenn sem dreifast víða um spítalann. Störfin eru fjölbreytt og gefst starfsfólki tækifæri á að öðlast víðtæka þekkingu innan fagsins. Mikið faglegt starf er unnið og eru ýmsir möguleikar á endurmenntun. Við leggjum mikla áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og veita góða aðlögun.
Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sigurbjörgu Hannesdóttur yfiriðjuþjálfa Landspítala og ekki hika við að kíkja í heimsókn til að kynnast starfi okkar betur.
Starfshlutfall er 50-100% eða eftir samkomulagi og unnið er í dagvinnu. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst eða eftir nánara samkomulagi.
Vinnuvika starfsfólks í fullri vinnu er nú 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.
- Þjálfun einstaklinga með færniskerðingu undir leiðsögn iðjuþjálfa
- Halda utan um og taka þátt í hópastarfi
- Sinna eftirliti með búnaði og hjálpartækjum
- Taka þátt í öðrum störfum innan iðjuþjálfunar eftir þörfum
- Menntun sem nýtist í starfi kostur t.d. íþróttafræði, þroskaþjálfun, listmenntun o.s.frv.
- Hæfni í mannlegum samskiptum
- Sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum
- Almenn tölvukunnátta
- Góð íslenskukunnátta
- Kunnátta á handverki kostur






























































