

Sálfræðingur í bráða-og ráðgjafaþjónustu geðþjónustu
Sálfræðiþjónusta Landspítala vill ráða til starfa þrjá metnaðarfulla og sjálfstæða sálfræðinga með góða samskiptafærni og sem hafa áhuga á að vinna með fólki sem er að takast á við bráðan geðvanda.
Störfin eru staðsett í bráða- og ráðgjafaþjónustu geðþjónustu. Þar starfar þverfaglegur hópur heilbrigðisstarfsfólks og er starfsemin fjórþætt:
- Bráðamóttaka sjúklinga sem eiga við bráð geðræn veikindi að stríða
- Skammtíma eftirfylgd eftir komu í bráðaþjónustu
- Ráðgjafaþjónusta fyrir bráðamóttöku í Fossvogi
- Ráðgjafaþjónusta fyrir legudeildir Landspítala
Lögð er áhersla á öfluga þverfaglega teymisvinnu og stöðuga þróun.
Um er að ræða faglega krefjandi störf á spennandi vettvangi fyrir sálfræðinga sem hafa áhuga á nýsköpun og framþróun í starfi. Landspítali er þverfaglegur vinnustaður og býður upp á líflegt starfsumhverfi.
Hjá Sálfræðiþjónustunni starfa 80 sálfræðingar í ólíkum þverfaglegum teymum á ýmsum deildum Landspítala. Sálfræðiþjónustan er í stöðugri framþróun og unnið að fjölbreyttum umbótaverkefnum. Margvísleg tækifæri eru til að dýpka þekkingu í greiningu og meðferð. Lögð er áhersla á að sálfræðingar á Landspítala fái öfluga handleiðslu og símenntun í faginu.














































