

Málastjóri í Laufeyjarteymi
Málastjóri með brennandi áhuga á þverfaglegri vinnu með einstaklingum með samslátt geð- og vímuefnavanda óskast til starfa í Laufeyjarteymi Landspítala. Starfið býður upp á mörg spennandi tækifæri til starfsþróunar. Staðan er laus frá 15. nóvember 2025 eða eftir samkomulagi og er starfshlutfall 80-100%. Eingöngu er um dagvinnu að ræða.
Laufeyjarteymi þjónustar einstaklinga sem lifa með langvarandi samslætti geðsjúkdóma og fíknar, á því stigi að hvort um sig er alvarlegt og óstöðugt í eðli sínu og fyrri og vægari meðferðarnálganir hafa ekki skilað árangri eða bættum lífsgæðum. Teymið þjónustar einstaklinga í þeirra nærumhverfi, á vettvangi. Unnið er eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar, batamiðaðrar hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtals og geðlæknisfræða.
Hlutverk málastjóra er fjölbreytt og felst meðal annars í mati á geðrænum einkennum og á einstaklingsbundnum þörfum, sinna meðferð og eftirfylgd, þróa meðferðaráætlanir og vöktun á árangri þjónustunnar. Málastjóri er talsmaður skjólstæðinga í samskiptum við kerfi og þjónustu í nánu notendasamráði sem byggir á góðu meðferðarsambandi. Málastjóri er einnig í samskiptum við aðstandendur og heldur utan um þá meðferð og endurhæfingu sem einstaklingurinn þarf á að halda.
Starfsemin er í stöðugri þróun og lögð er áhersla á virkt umbótastarf. Málastjórum standa til boða mikil tækifæri til vaxtar í starfi með markvissri handleiðslu og faglegum stuðningi. Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingar, læknar, félagsráðgjafar og málastjórar.
Laufeyjarteymi er þverfaglegt teymi sem er starfrækt á göngudeild geð- og fíknisjúkdóma. Tvö teymi eru á göngudeildinni, Laufeyjarteymi og göngudeildarteymi og er mikið samstarf á milli þessara teyma. Góður starfsandi ríkir á deildinni og er starfsumhverfið fjölskylduvænt. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Elísabetu aðstoðardeildarstjóra ef óskað er eftir frekari upplýsingum um starfið.































































