Teymisstjóri í aðfangaþjónstu Landspítala
Aðfangaþjónusta Landspítala auglýsir eftir teymisstjóra deildaþjónustu. Deildaþjónusta veitir mikilvæga þjónustu á deildum spítalans með rekstrarvörur og lín, m.a. birgðastýringu, pantanir og áfyllingar. Einnig sér teymið um að afgreiða og fylla á fataafgreiðslur spítalans þar sem starfsfólk hefur aðgang að starfsmannafatnaði. Markmið deildaþjónustu er að veita framúrskarandi þjónustu við deildir spítalans og létta þannig undir með klínískri starfsemi.
Við leitum af öflugum teymisstjóra sem hefur brennandi áhuga á að styðja mikilvæga starfsemi aðfangaþjónustu á einum stærsta vinnustað landsins. Starfið er fjölbreytt og gefandi og er teymisstjóri í miklu samstarfi við annað starfsfólk teymisins sem og starfsfólk á deildum spítalans. Hlutverk teymisstjóra deildaþjónustu er að tryggja þjónustu við deildir spítalans með áherslu á skilvirkni, samvinnu og nýsköpun í rekstri og þjónustu. Teymisstjóri ber ábyrgð á daglegri starfsemi teymisins, mönnun, innleiðingu nýrra verkferla og umbótaverkefna, auk þess að þróa og styrkja starfsemi þjónustunnar í takt við markmið Landspítala.
Teymið innan deildaþjónstu telur í dag 24 einstaklinga, en það hefur að undanförnu stækkað hratt þar sem áhersla hefur verið lögð á innleiðingu deilda í þjónustuna. Nú þegar eru allar legudeildir spítalans komnar í þjónustu en mikil tækifæri liggja í að innleiða þjónustu á fleiri deildir og betrumbæta ferla og verklag.
Teymisstjóri heyrir beint undir deildarstjóra aðfangaþjónustu Landspítala. Teymisstjóri er því hluti af stjórnendateymi aðfangakeðju spítalans og mun taka þátt í að þróa starfsemina til framtíðar með áherslu á sjálfvirknivæðingu, nýja tækni og aukna skilvirkni. Önnur teymi innan aðfangaþjónustu eru vöruhús, þvottahús og flutningaþjónusta.
Leitað er að jákvæðum, heiðarlegum og ábyrgum einstaklingi sem býr yfir skipulagi og lipurð í mannlegum samskiptum, hefur brennandi áhuga á teymisvinnu og að byggja upp og viðhalda sterkri liðsheild. Starfsemi teymisins er á Hringbraut og Fossvogi í dag en markmiðið er að útvíkka starfsemina á fleiri starfstöðvar spítalans. Starfshlutfall er 100% og er starfið laust samkvæmt samkomulagi en æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst.