Sálfræðingur í þunglyndis- og kvíðateymi geðþjónustu
Sálfræðiþjónusta Landspítala vill ráða til starfa metnaðarfullan og sjálfstæðan sálfræðing með góða samskiptafærni og áhuga á fjölbreyttu starfi í þverfaglegu umhverfi.
Í þunglyndis- og kvíðateyminu (ÞOK) starfar þverfaglegur hópur heilbrigðisstarfsfólks. Teymið sinnir greiningu og meðferð fyrir fólk sem er að takast á við alvarlegar kvíðaraskanir og þunglyndi ásamt því að sinna mismunagreiningu þegar um er að ræða fjölþættan geðvanda og þörf á að meta þjónustuþarfir.
Um er að ræða faglega krefjandi starf á spennandi vettvangi fyrir sálfræðinga sem hafa áhuga á nýsköpun og framþróun í starfi. Landspítali er þverfaglegur vinnustaður og býður upp á líflegt starfsumhverfi.
Hjá Sálfræðiþjónustu Landspítala starfa um 80 sálfræðingar í ólíkum þverfaglegum teymum á ýmsum deildum spítalans. Sálfræðiþjónustan er í stöðugri framþróun og unnið að fjölbreyttum umbótaverkefnum. Margvísleg tækifæri til að dýpka þekkingu í greiningu og meðferð. Lögð áhersla á að sálfræðingar á Landspítala fái handleiðslu og símenntun í faginu.
Ráðið er í starfið frá 1. mars 2025 eða eftir nánara samkomulagi.