

VOGL - Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun
Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun (VOGL) er fjölbreytt nám sem ætlað er þeim sem vilja í senn öðlast þekkingu og þjálfun á sviði verkefnastjórnunar og efla leiðtogahæfileika sína.
Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun byggir á að efla fjóra megin færniþætti: Leiðtogafærni, samskiptafærni, stefnumótunarfærni og skipulagsfærni. Námið er kennt á grunni kennslubóka á íslensku eftir kennara námsins um fyrrgreinda færniþætti. Notast er við fjarkennslu sem og fjórar lotur þar sem nemendur hittast og efla meginþætti leiðtogafærninnar.
Námið samanstendur af fjórum námskeiðum sem skiptast á milli tveggja missera og áhersla lögð á að kenna nemendum hagnýtar aðferðir og þjálfa þá í notkun þeirra. Fengist er við raunhæf verkefni í kennslustofunni í fjölbreyttri vinnu og krefjandi verkefnum svo og í hópverkefnum. Náminu lýkur með því að nemendur undirgangast alþjóðlega D-vottun í verkefnastjórnun og fá að henni lokinni alþjóðlegan titil: Certified Project Management Associate.