Aðstoðarrannsakandi - Sálfræðideild
Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík leitar að kraftmiklum aðstoðarrannsakanda í hlutastarf. Starfið felst í að aðstoða starfsfólk sálfræðideildar við framkvæmd rannsóknar um sýndarveruleika í dómsal sem stuðningur við þolendur kynferðisofbeldis.
Starfið felur í sér að vinna við gagnasöfnun, taka á móti þátttakendum, leggja fyrir spurningalista og viðtöl, skrifa upp viðtöl auk þess að stjórna sýndarveruleikatækni rannsóknarinnar. Starfsmaður verður þjálfaður í þessum verkþáttum svo ekki er gerð krafa um fyrri kunnáttu á þessum sviðum.
Umsækjendur þurfa að vera 18 eða eldri og tala góða íslensku. Ætlast er til að umsækjendur hafi góða hæfni á tölvu, séu góðir í skipulagningu og mannlegum samskiptum. Þátttakendur rannsóknarinnar eru þolendur kynferðisofbeldis og því er nauðsynlegt að viðkomandi geti rætt um tilfinningalega erfið mál.
Um hlutastarf er að ræða þar sem greitt er á tímann. Ætlast er til að umsækjendur geti tekið á móti þátttakendum frá kl. 10.00-16.00 minnst þrjá virka daga í viku, en einhver sveigjanleiki er með vinnutíma. Gagnasöfnun mun eiga sér stað út apríl 2024.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Rannveig Sigurvinsdóttir, ábyrgðarmaður rannsóknarinnar og dósent við sálfræðideild HR (rannveigs@ru.is) og Hildur D. Pálsdóttir, skrifstofustjóri (hildur@ru.is). Umsóknarfrestur er til og með 26. janúar 2024. Farið er með allar fyrirspurnir og umsóknir sem trúnaðarmál.
Háskólinn í Reykjavík hefur haslað sér völl sem öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðavísu. Háskólinn stenst samanburð við erlenda háskóla í fremstu röð og fræðafólk skólans hefur náð framúrskarandi árangri. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfaglegt samstarf, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu.
HR er eftirsóknarverður vinnustaður og þar er lögð áhersla á fyrsta flokks aðstöðu í nærandi umhverfi, persónuleg samskipti, framsæknar kennsluaðferðir og nútímalega starfshætti. HR fagnar fjölbreytileika og mikið er lagt upp úr jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingum og störfum þeirra. Nemendur Háskólans í Reykjavík eru um 4.300 í sjö deildum og starfsfólk er um 320 talsins, auk 350 stundakennara.