Klínískur fagaðili óskast til starfa á Rjóðri
Klínískur fagaðili óskast til starfa á Rjóðri, t.d. þroskaþjálfi eða sjúkraliði. Í boði er góð einstaklingsaðlögun undir leiðsögn reynds fagfólks á fjölskylduvænum vinnustað með frábæru samstarfsfólki.
Rjóður er deild innan Landspítala þar er veitt sérhæfð hjúkrun og endurhæfing fyrir börn að 18 ára aldri sem eiga við alvarleg langvinn veikindi og fatlanir að stríða. Rjóður er bæði sólarhringsdeild og dagdeild og þar starfa um 30 einstaklingar í þverfaglegu teymi. Deildin lokar yfir jól og áramót, páska og í 4 vikur yfir sumartímann. Gott tækifæri er til að þróa með sér faglega þekkingu og hæfni í sjálfstæðum vinnubrögðum. Starfshlutfall er samkomulag. Unnið er í vaktavinnu og er ráðið í starfið frá 1. janúar 2025 eða eftir nánara samkomulagi.