

Auglýst eftir almennum læknum á Sýkla- og veirufræðideild (SVEID)
Lausar eru til umsóknar tvær stöður almennra lækna við Sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Um er að ræða tímabundin störf í 6-12 mánuði eða eftir nánara samkomulagi. Starfshlutfall er 100%, nema að um annað sé samið. Unnið er í dagvinnu og á bakvöktum með viðveru um helgar. Stöðurnar eru lausar eftir samkomulagi.
Sýkla- og veirufræðideild Landspítala er þjónusturannsóknastofa og tilvísunarrannsóknastofa fyrir Ísland á sviði bakteríu-, veiru-, sveppa- og sníkjudýrafræði. Deildin vinnur með sóttvarnarlækni og öðrum heilbrigðisyfirvöldum að bættri lýðheilsu. Áhersla er lögð á góða þjónustu, virka teymisvinnu og stöðugar umbætur í þágu sjúklinga.
Veirufræðihluti deildarinnar er staðsettur í Ármúla 1a en sýklafræðihlutinn er að mestu leyti staðsettur á lóð Landspítala við Barónsstíg. Á deildinni starfa um 80 einstaklingar, þar af eru átta sérfræðilæknar í föstu starfi (í 6,5 stöðugildum) og eins og er einn almennur læknir.
Læknar Sýkla- og veirufræðideildar gegna mikilvægu hlutverki í starfsemi deildarinnar. Þeir veita almenna ráðgjöf um greiningu smitsjúkdóma og aðstoða við val á rannsóknum, sýnatökum og -sendingum. Sjá um miðlun og túlkun rannsóknaniðurstaðna og taka mikinn þátt í gæðastarfi deildarinnar, meðal annars ritun gæðaskjala og staðfestingu.
Ætlunin er að almennir læknar, að lokinni aðlögun, taki þátt í læknastarfinu ásamt því að vera á gæsluvöktum með stuðningi sérfræðilæknis á bakvakt.










































