

Hjúkrunarfræðingur í ígræðsluteymi
Laust er til umsóknar starf hjúkrunarfræðings í ígræðsluteymi Landspítala sem staðsett er á almennri Göngudeild 10E við Hringbraut. Á ígræðslugöngudeild er sjúklingum og fjölskyldum þeirra sem eru í undirbúningsferli fyrir ígræðslu nýra, briss eða lifra sinnt með fræðslu og stuðningi, en einnig nýragjöfum. Jafnframt fer þar fram eftirmeðferð hjá þessum sjúklingahópum ásamt hjartaþegum. Samvinna er við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð.
Í boði er einstaklingsmiðuð aðlögun undir leiðsögn reyndra hjúkrunarfræðinga. Starfshlutfall er 80-100% dagvinna og er starfið laust frá 1. nóvember 2025 eða eftir nánara samkomulagi.
Á göngudeild 10E eru einnig sérhæfðar teymismóttökur á sviði skurð- og lyflækninga s.s. meltingarteymi, kviðarhols- og stómateymi og einnig móttaka í sárameðferðir og innrennsli. Þá eru þar innskriftir skurðsérgreina við Hringbraut og svæfingar fyrir allan spítalann. Á deildinni er markvisst unnið að umbótum og framþróun, en þar starfar öflugur hópur reyndra hjúkrunarfræðinga og¿einkennist vinnuandinn af samvinnu, metnaði og góðum liðsanda.
Vinnuvika starfsfólks í fullri dagvinnu er 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.






























































