

Hvernig má fyrirbyggja mistök í opinberum útboðum?
Á námskeiðinu verður farið yfir helstu mistök sem verða við framkvæmd opinberra innkaupa og hvernig má koma í veg fyrir þau. Áhersla verður lögð á að skoða dæmi um mistök bæði opinberra aðila og einnig fyrirtækja eða ráðgjafa þeirra sem vinna að tilboðum. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi orðið af stórum samningum vegna smávægilegra mistaka við tilboðsgerðina sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir með því að fræða starfsfólk. Einnig hafa opinberir aðilar þurft að greiða háar fjárhæðir í bætur vegna mistaka við opinber útboð.
Með lagabreytingum undanfarinna ára eru afleiðingar þess að brjóta gegn lögum um opinber innkaup orðnar mun alvarlegri en áður. Dómsmálum vegna mistaka við opinber innkaup hefur einnig fjölgað. Nýleg dómaframkvæmd er athyglisverð og leggur línurnar um það sem koma skal. Sérstaklega verður fjallað um hlutverk kærunefndar útboðsmála í því ljósi.
Það er afskaplega mikilvægt að verkfræðingar og aðrir sérfræðingar sem koma að ráðgjöf í tengslum við opinber útboð þekki vel lög og reglur sem gilda og geri sér grein fyrir hvar hættur á mistökum liggja. Á námskeiðinu er ætlunin að sýna hvar hætta á mistökum er mest og hvernig má koma í veg fyrir þau.