

Offitumeðferð - einstaklingurinn í forgrunni
Á námskeiðinu verður lögð áhersla á hagnýta þætti og mikilvægi þverfaglegrar og einstaklingsmiðaðrar nálgunar í meðferð við offitu. Farið verður yfir uppvinnslu og stigun sjúkdómsins, leiðir til þess að ræða og veita ráðleggingar um mataræði og hreyfingu, uppvinnslu á átröskunum og áfallasögu og hvenær þörf er á því að vísa í sérhæfð úrræði.
Offita er flókinn og margþættur langvinnur sjúkdómur. Um 27% fullorðinna Íslendinga lifa með offitu en mjög einstaklingsbundið er hversu alvarlegur sjúkdómurinn er og hversu mikil áhrif hann hefur á heilsu og lífsgæði. Fordómar gagnvart einstaklingum með offitu eru algengir, bæði í samfélaginu en einnig meðal heilbrigðisstarfsfólks. Þetta getur haft áhrif á það hvort einstaklingar með offitu leiti sér aðstoðar innan heilbrigðiskerfisins. Oft er heilbrigðisstarfsfólk ómeðvitað um sína fordóma eða það hvernig sjúklingurinn sem leitar sér aðstoðar upplifir viðmót og ráðleggingar sem veittar eru. Í meðferð offitu er mikilvægt að nálgast skjólstæðinginn af virðingu, bjóða upp á samtal um þyngdina, skilgreina vandamál og markmið hvers og eins, byggja ráðleggingar á faglegum grunni, greina og meðhöndla fylgisjúkdóma, fara yfir sálfélagslega þætti og þekkja ábendingar fyrir sérhæfðri offitumeðferð.