

Breytingar á verktíma
Á námskeiðinu verður með hagnýtum og raunhæfum hætti fjallað um skilyrði og beitingu tafabóta í verkframkvæmdum. Farið verður yfir þær reglur sem gilda um tafabætur og hvernig dómstólar hafa mótað þær reglur í gegnum árin. Þá er fjallað um aðrar afleiðingar vegna breytinga á verktíma, svo sem viðbótargreiðslur til verktaka.
Markmið námskeiðsins er að miðla áfram þeirri þekkingu sem kennarar hafa öðlast með rekstri dómsmála á sviði verktakaréttar og setja fram með skýrum hætti þær reglur sem mótast hafa í framkvæmd og lúta að tafabótum.
Á námskeiðinu verður vikið að frumskilyrðum fyrir beitingu tafabóta, rétti verktaka til framlengingar verktíma, tilkynningum verktaka um framlengingu verktíma. Fjallað verður um tómlæti verkkaupa við innheimtu tafabóta, endurskoðunarheimild dómstóla á ákvæðum verksamninga um tafabætur og rétti verktaka til bóta vegna lengri verktíma þegar skilyrði tafabóta eru ekki uppfyllt. Áhersla verður lögð á reglur ÍST 30 og hvernig þær hafa mótast í dómaframkvæmd.