

Fagleg samtöl - aukin færni stjórnandans
Viltu fá tæki og tól í hendurnar og aukið sjálfstraust til að taka samtalið í vinnunni og ræða málin? Hvernig ræðum við það sem betur má fara, hvort sem það er frammistaða, samskipti eða fagmennska? Á námskeiðinu er farið yfir hvernig við getum aukið færni okkar í að eiga gagnleg samtöl.
Samtölin geta verið mismunandi. Þau geta til dæmis verið leiðbeinandi samtöl þar sem ræða þarf ófullnægjandi frammistöðu, samskipti sem þarf að bæta eða eitthvað annað sem tengist vinnustaðnum og þarf að ræða.
Fáa langar til að taka óþægilega samtalið og margir veigra sér við því. En aðgerðarleysinu fylgir óneitanlega sú hætta að vandamálið vaxi. Því er mikilvægt að stjórnendur búi yfir þekkingu og reynslu í að taka samtalið til að geta brugðist við þegar við á.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái aukinn skilning á því hvaða þættir eru mikilvægir til að eiga gott og gagnlegt samtal og auki hæfni sína í því að taka slík samtöl. Hvernig við setjum okkur sem best í spor þess sem við ræðum við og pössum upp á að gæta sálræns öryggis. Farið verður yfir undirbúning, hvað skiptir mestu máli í sjálfu samtalinu og hvernig er best að fylgja því eftir.
Þessu námskeiði er ætlað að undirbúa og þjálfa stjórnendur og færa þeim réttu verkfærin og tólin til að tækla þetta verkefni stjórnandans.