

Doktorsnemi í sálfræði – langtímarannsókn
Við leitum að metnaðarfullum og áhugasömum einstaklingi í launað doktorsnám í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Nemandinn mun taka þátt í verkefninu “Áhrif eldgoss og umbrota á andlega líðan björgunarsveitarfólks á Íslandi” en það hlaut verkefnastyrk frá RANNÍS til þriggja ára. Verkefnið snýr að andlegri líðan sjálfboðaliða í björgunarsveitum í kjölfar náttúruhamfara og krefjandi samfélagslegra verkefna, með áherslu á áfallastreitu, kulnun og þrautseigju.
Um verkefnið
Í kjölfar eldvirkni og hamfaraviðburða á Reykjanesi og í Grindavík hafa björgunarsveitir gegnt lykilhlutverki í að tryggja öryggi almennings, sinna rýmingum og verja eignir. Þessi rannsókn byggir á gögnum sem söfnuð voru frá björgunarsveitafólki árið 2019, áður en sérstakir atburðir áttu sér stað, og gögnum sem safnað var við upphaf hamfara vorið 2024 og verður áfram safnað á árinu 2025. Verkefnið veitir sjaldgæft tækifæri til að skoða langtímatengsl milli streitu og kulnunar í hópi sem oft stendur frammi fyrir miklu álagi, en þar er þörf á aukinni þekkingu til að móta forvarnir og íhlutanir. Hægt verður að skoða hópinn sem starfar á Reykjanesi sérstaklega og einnig bera saman við björgunarsveitaraðila á landsvísu. Doktorsneminn mun taka þátt í hönnun rannsóknarinnar, gagnasöfnun og greiningu og vinna að alþjóðlegri miðlun niðurstaðna í samstarfi við reynda fræðimenn innlenda og erlenda á sviði klínískrar sálfræði og áfallarannsókna.
Við leitum að einstaklingi sem hefur:
- Meistaragráðu í sálfræði
- Sterkan rannsóknaráhuga og hæfni í sjálfstæðri vinnu
- Reynsla af gagnaöflun og greiningu gagna er kostur
- Góð færni í samskiptum og samstarfi
- Hæfni í íslensku og ensku, í töluðu og rituðu máli
Við bjóðum:
- Þátttöku í mikilvægu samfélagslegu rannsóknarverkefni
- Nám í virku og alþjóðlega tengdu rannsóknarumhverfi
- Möguleika á framlagi til þróunar á inngripum og forvörnum fyrir sjálfboðaliða
- Rannsóknarstyrk samkvæmt reglum Rannís
Umsóknarferlið
Umsókn skal innihalda ferilskrá, kynningarbréf, staðfestingu á meistaragráðu (eða staðfestingu á væntanlegum útskriftardegi) auk upplýsinga um meðmælendur.
Umsóknarfrestur er til og með 31. maí Umsóknum skal skilað á ráðningarvef Háskólans í Reykjavík. Farið er með umsóknir sem trúnaðarmál.
Frekari upplýsingar um rannsóknarverkefnið veitir Dr. Sigríður Björk Þormar, stundakennari, [email protected].
Nánari upplýsingar um umsóknarferlið veitir Dr. Linda Bára Lýðsdóttir, lektor, [email protected].
HÁSKÓLINN Í REYKJAVÍK
Háskólinn í Reykjavík hefur haslað sér völl sem öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðavísu. Háskólinn stenst samanburð við erlenda háskóla í fremstu röð og fræðafólk skólans hefur náð framúrskarandi árangri. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfaglegt samstarf, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu.
HR er eftirsóknarverður vinnustaður og þar er lögð áhersla á fyrsta flokks aðstöðu í nærandi umhverfi, persónuleg samskipti, framsæknar kennsluaðferðir og nútímalega starfshætti. HR fagnar fjölbreytileika og mikið er lagt upp úr jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingum og störfum þeirra. Nemendur Háskólans í Reykjavík eru um 4.300 í sjö deildum og starfsfólk er um 330 talsins, auk 350 stundakennara.







