
Aðstoðarskólastjóri Brekkubæjarskóla
Laus er til umsóknar staða aðstoðarskólastjóra við Brekkubæjarskóla á Akranesi. Leitað er að lausnamiðuðum leiðtoga sem er tilbúinn að taka þátt í að stjórna og leiða faglegt starf í skólanum.
Brekkubæjarskóli er heildstæður skóli með 470 nemendur í 1. – 10. bekk og hefur náð góðum árangri í inngildandi skólastarfi og heildstæðri nálgun þar sem lögð er mikil áhersla á að hver nemandi fái að nýta hæfileika sína.
Brekkubæjarskóli er teymiskennsluskóli með áherslu á þverfaglega teymisvinnu. Gott orðspor fer af þessari vinnu og hafa fjölmargir skólar á Íslandi fengið kynningu á þessum vinnubrögðum.
Brekkubæjarskóli er Byrjendalæsisskóli og er lögð áhersla á fjölbreyttar aðferðir við nám og kennslu í öllum skólanum. Öflugt tónlistarstarf hefur einkennt skólann um langt árabil og lögð er áhersla á skapandi skólastarf. Á þriggja ára fresti setur skólinn upp stórt leikrit þar sem allir nemendur á unglingastigi fá tækifæri til að taka þátt.
Í Brekkubæjarskóla er virkt nemendalýðræði og vinnur skólinn markvisst að því að skapa leiðir fyrir nemendur til að hafa áhrif í öllu skólastarfi. Akraneskaupstaður vinnur að því að verða barnvænt sveitarfélag með innleiðingu Barnasáttmálans og á sér stað öflug samvinna innan bæjarins um aukna þátttöku barna í ákvörðunum sem varða þau.
Góður og fróður er skólastefna Brekkubæjarskóla og er skýr framtíðarsýn í anda lífsleikni, manngildis og hugmynda um að til þess að ná árangri í skólastarfi þurfi að hlúa að vellíðan og starfsánægju bæði nemenda og starfsmanna skólans. Markviss vinna er með dygðir þvert á allar námsgreinar er hluti af skólastefnunni.
Umfangsmiklar lagfæringar og breytingar hafa verið gerðar á húsnæði skólans og verður þeim lokið í janúar 2026. Þá verða til að mynda teknar í notkun nýjar kennslustofur fyrir list- og verkgreinar sem eru hannaðar í takt við nútímakennsluhætti.
- Daglegur rekstur skólans
- Stjórnun og stuðningur við kennara og annað starfsfólk
- Samskipti við nemendur, foreldra og aðra hagaðila skólasamfélagsins
- Þátttaka í stefnumótun og þróun skólastarfs
- Að vera staðgengill skólastjóra
- Vinna náið með starfsfólki að því að viðhalda og skapa frjótt námsumhverfi með farsæld barna að leiðarljósi
- Viðhalda og leiða inngildandi starfshætti í samstarfi við stjórnendateymið og starfsfólk skólans.
- Önnur verkefni í samráði við stjórnendateymi
- Leyfi til að nota starfsheitið kennari og kennslureynsla (leyfisbréf fylgi umsókn)
- Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar eða stjórnunareynsla kostur
- Skýr fagleg framtíðarsýn
- Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og góðir skipulagshæfileikar
- Óbilandi trú á réttindum barna og ungmenna og áhugi á að starfa með þeim og foreldrum þeirra
- Góð íslenskukunnátta og færni til að tjá sig í ræðu og riti


















