Hjúkrunarfræðingur - Heilsugæslan Hamraborg
Heilsugæslan Hamraborg auglýsir eftir hjúkrunarfræðingi í 100% tímabundið starf til eins árs. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. janúar nk. eða eftir nánara samkomulagi.
Á heilsugæslunni starfar sérhæft og metnaðarfullt starfsfólk í hvetjandi og skemmtilegu starfsumhverfi þar sem frumkvæði og sjálfstæði fær að njóta sín. Lögð er áhersla á náið samstarf fagstétta og góða teymisvinnu. Jafnframt er stutt í helstu stofnbrautir og góðar samgöngur í kring.
Ný og spennandi tækifæri eru til starfsþróunar innan HH, þar sem hjúkrunarfræðingum stendur til boða að þróa sig í starfi s.s starfsþróunarár og sérnám í heilsugæsluhjúkrun. Heilsugæslan Hamraborg leggur áherslu á einstaklingsmiðaða aðlögun og stuðning við nýja starfsmenn.
Nánari upplýsingar um starfsemi stöðvarinnar má finna á vef Heilsugæslunnar (www.heilsugaeslan.is).
Helstu verkefni og ábyrgð
Starfssvið hjúkrunarfræðinga á heilsugæslu getur verið mjög fjölbreytt:
Opin og bókuð móttaka - Í móttöku sinna hjúkrunarfræðingar fólki á öllum aldri, bráðaerindum, bókuðum tímum og símaráðgjöf ásamt því að svara Heilsuveruskilaboðum. Í bókaðri móttöku er tekið á móti erindum s.s. ferðamannaheilsuvernd, sárameðferð, lyfjagjöfum ásamt heilsueflandi móttöku.
Heilsueflandi móttaka - Hjúkrunarfræðingur metur heilsu skjólstæðinga og þörf þeirra á heilsueflingu. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða nálgun, stuðning, fræðslu og eftirfylgni ásamt leiðsögn um heilbrigðikerfið og þjónustuúrræði.
Skólahjúkrun - Skólahjúkrunarfræðingur sinnir reglubundnu heilbrigðiseftirliti nemenda og fræðslu. Auk þess sinnir hann öðrum viðfangsefnum sem upp kunna að koma í samstarfi við annað starfsfólk skólans og foreldra eftir þörfum hverju sinni.
Ung og smábarnavernd - Markmið ung- og smábarnaverndar er að efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og heilbrigðisfræðslu til fjölskyldna þeirra. Heilsuvernd skólabarna felst m.a. í reglubundnu heilbrigðiseftirliti nemenda og fræðslu. Áhersla er lögð á stuðning við fjölskylduna. Fylgst er með þroska barna frá fæðingu til skólaaldurs.
Heilsuvernd eldra fólks - Hjúkrunarfræðingur leitast við að styðja eldra fólk til að efla og viðhalda andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Þjónustan felst í að greina áhættuþætti og veita fræðslu sem snerta heilsu og líðan. Hjúkrunarfræðingur veitir jafnframt ráðgjöf, leiðsögn og upplýsingar um þau þjónustuúrræði sem eru í boði.
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Þekking og áhugi á forvarnar- og heilsueflingarstarfi
- Reynsla af heilsugæsluhjúkrun kostur
- Sjálfstæði í starfi, skipulagshæfni og öguð vinnubrögð
- Reynsla og áhugi á teymisvinnu
- Reynsla af bráða- og slysamóttöku er kostur
- Mikil samskiptahæfni og sveigjanleiki
- Íslenskukunnátta og góð almenn tölvukunnátta