
Háskólakennari á sviði rytmískrar tónlistar við LHÍ
Laust er til umsóknar starf háskólakennara á sviði rytmískrar tónlistar með áherslu á nýsköpun og tækni við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Auk kennslu felur starfið í sér vinnu við uppbyggingu og skipulag nýrrar námsleiðar (sjá lýsingu að neðan). Starfshlutfall er 50% eða hærra, eftir samkomulagi. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem allra fyrst.
Í haust hefst kennsla við nýja námsleið á bakkalárstigi. Um er að ræða fjölþætt og framsækið rytmískt flytjendanám (B.Mus) sem hefur það að markmiði að þjálfa nemendur á víðu færnisviði tónlistar og leggja grunn að framtíð og velgengni í síbreytilegu tónlistarumhverfi dagsins í dag. Áhersluleiðir eru fjórar: Djass, popp/rokk, laga- og textasmíðar og rytmísk hljóðlist. Auk hefðbundinna verkefna háskólakennara felur starfið í sér mótun og þróun námsleiðarinnar í samstarfi við annað starfsfólk tónlistardeildarinnar.
Starfið er unnið í samræmi við reglur Listaháskólans um akademísk störf sem eru í gildi hverju sinni.
- Meistaragráða á sviði rytmískrar tónlistar
- Doktorsgráða á sviði rytmískrar tónlistar er kostur
- Starfsreynsla á sviði tónlistar
- Kennslureynsla
- Reynsla af rannsóknum á sviði tónlistar er kostur
- Afbragðs miðlunar- og samskiptahæfni
- Skipulagshæfni og áreiðanleiki
- Gott vald á töluðu og rituðu máli
Við ráðningu verður meðal annars litið til þess hvaða hæfileika ætla megi að umsækjandi hafi til samstarfs við aðra og hvernig eiginleikar hans geti nýst til starfa innan skólans. Frammistaða í viðtölum mun hafa mikið vægi við ákvörðun ráðningar. Að loknu viðtalsferli verður hæfi valinna umsækjenda metið samkvæmt reglum Listaháskóla Íslands um veitingu akademískra starfa, sjá nánar á lhi.is/log-og-reglur – umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglurnar við gerð umsóknar.
