

Viltu vinna sem jafningi á geðgjörgæslu, Hringbraut?
Geðgjörgæslan Hringbraut auglýsir laust til umsóknar spennandi hlutastarf fyrir áhugasama. Um er að ræða starf sem jafningi (peer supporter) á deildinni. Vinnutími er sveigjanlegur eftir verkefnum hverju sinni. Upphafsdagur starfs er 15. september 2025 eða eftir nánara samkomulagi.
Við leitum eftir jákvæðum og ábyrgum einstaklingi með góða samskiptahæfni. Viðkomandi þarf að hafa persónulega reynslu sem notandi geðheilbrigðisþjónustu, vera tilbúin að deila reynslu sinni í sínu starfi og ígrunda aðstæður, upplifanir, þarfir og reynslu með þjónustuþegum, öðrum jafningjum og samstarfsfólki á deildum.
Geðgjörgæsla er 10 rúma legudeild þar sem veitt er sérhæfð þjónusta í meðferð og umönnun einstaklinga með bráð geðræn einkenni. Gagnreynd þekking, viðurkenndir verkferlar og hugmyndafræði um geðgjörgæslu eru í fyrirrúmi.
Á deildinni starfa um 50 einstaklingar í þverfaglegu meðferðarteymi. Vinnuandinn einkennist af samvinnu, lipurð, stuðningi, metnaði og góðum liðsanda.
Starfsþjálfun fer fram með öðrum jafningjum. Ætlast er til að jafningjar séu í reglulegum samskiptum sín á milli og taki þátt í notendaráði geðþjónustu að einhverju marki. Einnig verður jafningjum boðið að fara á námskeið í jafningjastuðningi hafi þeir ekki lokið því. Nýtt starfsfólk fær tækifæri til að hafa áhrif á hvernig, hvar og hvenær starfið er unnið. Hér eru mikil tækifæri til þess að taka þátt í að þróa starfið enn frekar innan geðþjónustunnar og í víðara samhengi.



















































