

Sjúkraþjálfari á Landspítala við Hringbraut
Vilt þú verða hluti af öflugum og samheldnum hópi sjúkraþjálfara þar sem fagmennska, fjölbreytni og þverfaglegt samstarf ríkir?
Þetta er kjörið tækifæri fyrir áhugasama sjúkraþjálfara sem vilja dýpka þekkingu sína, auka starfsreynslu og vinna í nærandi og fjölbreyttu starfsumhverfi. Við hvetjum bæði reynslumikla sjúkraþjálfara og nýútskrifaða til að sækja um.
Í starfi sjúkraþjálfara við Hringbraut færð þú tækifæri til að vinna í samhentu og þverfaglegu teymi þar sem sjúklingahópurinn er fjölbreyttur og verkefnin fjölþætt. Meðal þeirra deilda sem við störfum á eru: hjartadeild, hjarta- og lungnaskurðdeild, almenn kviðarholsskurðdeild, krabbameinsdeild, gjörgæsla, barnadeild og kvennadeild.
Við leggjum áherslu á góða aðlögun fyrir nýtt starfsfólk og tryggjum handleiðslu frá reyndum sjúkraþjálfurum. Starfið er dagvinna á virkum dögum en að lokinni aðlögun er möguleiki á að taka að sér gæsluvaktir á kvöldin og um helgar.
Í sjúkraþjálfun á Landspítala er lögð rík áhersla á fagþróun og símenntun, þátttöku í rannsóknum og öflugt þverfaglegt samstarf. Vellíðan starfsfólks er í forgrunni og hlúð er að jákvæðu og hvetjandi starfsumhverfi. Boðið er upp á 36 stunda vinnuviku í 100% starfi með það að markmiði að stuðla að betri heilsu og jafnvægi milli vinnu og einkalífs, með bættri nýtingu vinnutíma og gagnkvæmum sveigjanleika sem nýtist bæði starfsfólki og vinnustaðnum. Einnig eru í boði samgöngusamningur og önnur starfstengd fríðindi.
Starfshlutfall er 100% og er starfið laust frá 1. september 2025.























































