

Deildarforseti í tónlist við LHÍ
Listaháskóli Íslands leitar að metnaðarfullri og áreiðanlegri manneskju í stöðu deildarforseta í tónlist. Námsleiðir deildarinnar hafa nýlega verið endurskipulagðar og mun viðkomandi taka við og klára innleiðingu þeirra.
Deildarforseti ber ábyrgð á stefnumótun fagsviðsins og útfærslu hennar í námi, kennslu og rannsóknum í samræmi við heildarstefnu skólans. Hann leiðir faglegt samtal deildarinnar, stýrir daglegri starfsemi, sinnir mannauðsmálum og málefnum nemenda.
Um fullt starf er að ræða.
Listaháskóli Íslands er leiðandi í sköpun og miðlun þekkingar í listum, eflir listræna fagmennsku og er í fararbroddi við þróun almennrar menntastefnu í listum. Listaháskólinn er hreyfiafl í síbreytilegum heimi og gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu sem eini háskólinn á fræðasviði lista á Íslandi.
- Stefnumótun deildar í samræmi við heildarstefnumótun skólans
- Uppbygging náms og kennslu á fagsviðinu
- Þverfagleg samvinna milli deilda
- Samstarf við fagvettvang og alþjóðlegt samstarf
- Mannauðsmál og málefni nemenda
- Gerð rekstrar- og fjárfestingaráætlana
- Starfið getur falið í sér kennslu
Starfið er unnið í samræmi við reglur Listaháskólans um akademísk störf sem eru í gildi hverju sinni.
Deildarforseti skal hafa akademískt hæfi. Hæfi umsækjanda verður metið samkvæmt reglum Listaháskóla Íslands um veitingu akademískra starfa, sjá nánar á lhi.is/log-og-reglur og eru umsækjendur hvattir til að kynna sé reglurnar við gerð umsóknar.
Leitað er eftir umsækjendum sem búa yfir:
- Meistaragráðu í tónlist eða annarri meistaragráðu sem nýtist í starfi. Doktorsgráða er kostur
- Háskólagráðu í tónlist
- Starfsreynslu á sviði tónlistar
- Sterkri sýn á þróun náms í tónlist á háskólastigi
- Reynslu af stjórnun
- Reynslu af akademískri starfsemi á háskólastigi
- Virkri þátttöku í eða sterkum tengslum við fagsamfélag tónlistar
- Framúrskarandi samskiptahæfni, afbragðs skipulagsgetu og lausnamiðuðu hugarfari
- Mjög góðri íslensku og enskukunnáttu og hæfni til að miðla efni í töluðu og rituðu máli
Við ráðningu verður meðal annars litið til þess hvaða hæfileika ætla megi að umsækjandi hafi til samstarfs við aðra og hvernig eiginleikar hans geti nýst til starfa innan skólans. Frammistaða í viðtölum mun hafa mikið vægi við ákvörðun ráðningar. Að loknu viðtalsferli verður hæfi valinna umsækjenda metið samkvæmt reglum Listaháskóla Íslands um veitingu akademískra starfa, sjá nánar á lhi.is/log-og-reglur – umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglurnar við gerð umsóknar.
Skil á umsókn
Umsóknargögnum skal skilað eigi síðar en 8. desember 2025 á netfangið [email protected], merkt: Deildarforseti í tónlist.
Vegna hæfismats er æskilegt að við gerð umsóknar kynni umsækjendur sér þær reglur sem gilda um veitingu akademískra starfa, leiðbeiningar um gerð ferilskrár ásamt leiðbeiningum um gerð samantekta á ferli.
Til að umsókn sé gild skulu eftirfarandi gögn fylgja:
- Ferilskrá samkvæmt leiðbeiningum (pdf). Sjá hér.
- Samantekt á listrænum störfum, rannsóknum, kennslu og akademískum störfum og stjórnun samkvæmt leiðbeiningum (pdf). Sjá hér.
- Staðfest afrit af prófskírteinum.
- Greinargerð sem lýsir faglegri sýn umsækjenda á starfið og framtíðarsýn deildarinnar og hvernig viðkomandi myndi bera sig að því að móta og innleiða stefnu deildarinnar. Hámark 2 blaðsíður (pdf).
- Nöfn tveggja meðmælenda.
- Auk þess er umsækjanda heimilt að skila inn öðrum gögnum til stuðnings umsóknar.
Frekari upplýsingar um starfið veitir Katrín Johnson mannauðsstjóri, [email protected]
Farið verður með umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál. Skólinn áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Enska
Íslenska









