Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu
Þann 17. janúar 2025 verður frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins leikritið Ungfrú Ísland eftir samnefndri skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur sem út kom árið 2018 og hlotið hefur virt alþjóðleg verðlaun. Leikgerðina gerir Bjarni Jónsson. Af því tilefni býður Endurmenntun Háskóla Íslands í samstarfi við Borgarleikhúsið upp á tveggja kvölda námskeið um ferlið frá skáldsögu til leikrits.
Ungfrú Ísland segir frá ungri konu sem ákveður að verða rithöfundur árið 1963 í Reykjavík þegar skáld voru karlkyns. Í stað þess að sóa tíma í skriftir er hún hvött til að taka þátt í Ungfrú Ísland.
Hér gefst einstakt tækifæri til að fræðast um það hvernig íslenskt bókmenntaverk verður að leikverki, hvernig hugmyndir og túlkanir sameinast í einni heild og sjá hvernig saga Auðar Övu lifnar við í nýju ljósi á leiksviðinu.
8. janúar kl. 20:00 - 22:00: Fyrirlestur í Endurmenntun Háskóla Íslands
Auður Ava segir frá tilurð skáldsögu sinnar, Ungfrú Ísland sem kom út 2018, sögulegu samhengi bókar og persónusköpun. Sérstök áhersla verður lögð á hugmyndir um fegurðarþrána sem er að finna í bókinni. Einnig verður fjallað um mun á því að skrifa skáldsögu og leikrit en Auður hefur reynslu af ritun beggja.
Bjarni Jónsson höfundur leikgerðar fjallar um leikgerðina og helstu áskoranir við að skrifa leikrit eftir skáldsögunni. Einnig verða ræddar ólíkar leiðir við leikgerðir úr öðrum bókum.
15. janúar: Forsýning í Borgarleikhúsinu:
Þátttakendur fara á forsýningu á verkinu og verða þá með þeim fyrstu til að sjá sýninguna. Þátttakendum stendur einnig til boða að kaupa félagamiða á forsýningu.
Komdu huganum á hreyfingu og skráðu þig í dag!