

Þórbergur og bókin sem skók Ísland
Fjallað verður um Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson, en 100 ár eru síðan verkið kom fyrst út. Bókin verður sett í samhengi við íslenska bókmenntasögu og önnur verk Þórbergs og einnig verður vikið almennt að lífi hans og skrifum.
Í fyrsta tíma verður farið yfir ævi og verk Þórbergs, sagt frá uppeldi hans í Suðursveit, hungurárunum í Reykjavík á fyrsta áratug 20. aldar og hvernig leið hans til skrifta lá í gegnum margháttaða menntun og þjálfun á vegum Ungmennafélags Reykjavíkur og Háskóla Íslands, þar sem hann var óskráður nemandi í fimm ár. Fjallað verður um fjölbreytileg áhugamál hans og helstu verk.
Í öðrum tíma verður Halldór Guðmundsson gestafyrirlesari og hann mun fjalla um það bókmenntalega umhverfi sem Þórbergur stígur inn í þegar hann byrjar að fást við skriftir og setja verk hans í samhengi íslenskra bókmennta.
Í þriðja tíma verður Pétur Gunnarsson gestafyrirlesari og mun hann m.a. segja frá bókum sínum um Þórberg.
Í fjórða tíma verður farið í saumana á Bréfi til Láru, fjallað um mismunandi þætti þess verks og helstu áhrifavalda á Þórberg – erlenda sem innlenda. Þá verður kannað í hverju byltingarmáttur verksins er helst fólginn í samhengi íslenskra bókmennta.