

Af krafti inn í starfslokin
Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem eru að huga að því að ljúka starfsævi, eru að minnka við sig vinnu eða eru þegar hættir á vinnumarkaði.
Þetta eru stór tímamót í lífi fólks sem fela í sér endalok en einnig nýtt upphaf. Á þessu námskeiði verður lagt upp úr því að taka fagnandi á móti því sem koma skal og farið í leiðir til að gera næsta skeið að besta tímabili ævinnar. Markmið námskeiðs er að þátttakendur læri leiðir til að auka vellíðan, hamingju, gleði og bjartsýni. Jafnframt er fjallað um hagnýt atriði líkt og fjármál, lífeyris- og erfðamál. Aukin þekking gefur betri yfirsýn og öryggi þannig að auðveldara er að aðlaga sig að breyttu lífsmynstri.
Einar Þór Jónsson fjallar um mildi og gleði þriðja æviskeiðs, að komast í flæði og viðhalda lífsorku og áhuga. Fjallað er um forsendur jákvæðs hugarfars sem auka þakklæti, húmor og auka grósku hugans.
Lilja Lind Pálsdóttir fjallar um fjármál við starfslok. Farið verður, á einföldu og skýru máli, yfir reglur vegna skerðingar hjá Tryggingastofnun, lífeyrisréttindi og séreignarsparnað og þá möguleika sem í boði eru, ásamt því að skoða þann sveigjanleika sem er í boði við starfslok.
Guðrún Bergsteinsdóttir fjallar um erfðamál.
Harpa Katrín Gísladóttir fjallar um leiðir til að takast á við sálrænan vanda og byggja upp innihaldsríkt líf. Stuðst er við aðferðir ACT (Acceptance and Commitment Therapy).