

Skrifstofustjóri á skrifstofu loftslagsmála
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið auglýsir stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu loftslagsmála í ráðuneytinu lausa til umsókna í tengslum við breytingar á skipulagi ráðuneytisins, sem tekur gildi 1. janúar 2026. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipar í embættið til fimm ára í senn.
Í ráðuneytinu starfar um 50 manna samhentur hópur. Ráðuneytið leggur áherslu á öfluga teymisvinnu og hefur hlotið gæðavottun umhverfisstjórnunarkerfis og jafnlaunavottun.
Skrifstofan sinnir löggjöf á sviði loftslagsmála, verkefnum tengdum loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, eftirfylgni skuldbindinga samkvæmt Parísarsamningnum, gerð og eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, auk áætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum og vinnur jafnframt að stefnumótun um kolefnishlutleysi.
Skrifstofustjóri stýrir skrifstofu loftslagsmála undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra og sinnir daglegum rekstri hennar. Viðkomandi ber ábyrgð á faglegu starfi og verkefnum skrifstofunnar, þ. á m. samhæfingu við aðrar skrifstofur innan ráðuneytisins og önnur ráðuneyti eftir þörfum.
Hlutverk skrifstofu loftslagsmála er að koma áherslum ríkisstjórnar og yfirstjórnar ráðuneytisins í framkvæmd með stefnumótun, innleiðingu, framkvæmd, eftirfylgni og árangursmati innan málaflokka ráðuneytisins. Skrifstofan ber jafnframt ábyrgð á þeim alþjóðasamningum og erlendu samstarfi sem undir hana heyrir, ásamt innleiðingu og eftirfylgni með gerðum ESB.
- Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
- Framúrskarandi þekking á málaflokkum skrifstofunnar.
- Farsæl reynsla af stjórnun eða stýringu stærri verkefna.
- Víðtæk þekking á laga- og regluumhverfi opinberrar stjórnsýslu ásamt lögum um opinber fjármál.
- Haldbær reynsla af stefnumótun.
- Afburða samskiptafærni og hæfni til að skapa jákvætt og öflugt vinnuumhverfi og samvinnu.
- Öflug færni í að miðla upplýsingum á skýran og greinargóðan hátt.
- Frumkvæði, skipulagshæfni og umbótasinnuð hugsun ásamt getu til að starfa sjálfstætt.
- Stafræn hæfni.
- Mjög gott vald á íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli og færni til að tjá sig í ræðu og riti.













