
Eftirlitsfulltrúar í sauðfjárslátrun á Húsavík
Viltu taka þátt í að standa vörð um matvælaöryggi og velferð dýra?
Matvælastofnun óskar eftir að ráða eftirlitsfulltrúa til starfa við heilbrigðiseftirlit í sauðfjárslátrun á komandi hausti. Um er að ræða tímabundin störf í u.þ.b. tvo mánuði í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Eftirlitsfulltrúar fá kennslu og þjálfun sem fer fram undir lok ágústmánaðar. Eftirlitsfulltrúar munu einnig eiga möguleika á að bæta við sig þjálfun varðandi heilbrigðiseftirlit í alifuglasláturhúsum. Athygli er vakin á að starfsfólk á kost á húsnæði sér að kostnaðarlausu yfir tímabilið.
Matvælastofnun (MAST) er nútímaleg og framsækin þjónustustofnun sem stendur vörð um hagsmuni og heilsu manna, dýra og plantna og eykur þannig velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar. Starfsumhverfið er fjölskylduvænt og áhersla lögð á starfsánægju og góð samskipti ásamt því að stuðla að öflugu og lifandi þekkingarsamfélagi. Gildin sem starfsfólk hefur að leiðarljósi eru FAGMENNSKA, GAGNSÆI og TRAUST. Nánari upplýsingar má finna á www.mast.is
Eftirlitsfulltrúi sinnir fyrst og fremst opinberu eftirliti með heilbrigðisskoðun á kjötskrokkum, dýravelferð og hollustuháttum. Eftirlitsfulltrúar starfa undir ábyrgð og handleiðslu eftirlitsdýralækna viðkomandi sláturhúsa.
- Reynsla af sláturhúsastörfum æskileg
- Reynsla af umgengni við búfé æskileg
- Nákvæmni, frumkvæði, fagleg vinnubrögð og sjálfstæði í starfi
- Góðir skipulags- og samskiptahæfileikar
- Áhugi á matvælaöryggi og dýraheilbrigði
- Góð almenn tölvukunnátta
- Íslenskufærni A2 skv. samevrópska tungumálarammanum æskileg
- Enskufærni B1 skv. samevrópska tungumálarammanum æskileg
Matvælastofnun getur séð um að útvega húsnæði yfir starfstímabilið.













