

Verkefnastjóri á skrifstofu bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu
Við sækjumst eftir öflugum og metnaðarfullum verkefnastjóra til starfa á skrifstofu bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala (BLE). Um er að ræða nýtt ábyrgðarmikið og krefjandi starf sem reynir á frumkvæði, stefnumótandi hugsun og góða samskiptahæfni. Starfið felur í sér stuðning við framkvæmdastjóra og forstöðufólk sviðsins í utanumhaldi, greiningu, skipulagningu og eftirfylgd fjölbreyttra verkefna.
BLE er stærsta þjónustusvið Landspítala og á næstu árum standa yfir miklar breytingar og uppbygging í þjónustu, svo sem opnun bráðamatsdeildar, stækkun á Grensásdeild og flutningur í nýjan meðferðarkjarna. Þetta er því einstakt tækifæri til að taka þátt í umbreytingarferli sem mun hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu fyrir landið í heild.
Upphaf starfa er samkvæmt samkomulagi.



























































