

Sálfræðiþjónusta - Sálfræðingur í áfallateymi geðþjónustu
Sálfræðiþjónusta Landspítala vill ráða til starfa metnaðarfullan og sjálfstæðan sálfræðing með góða samskiptafærni sem hefur áhuga á að vinna með fólki sem er að takast á við afleiðingar áfalla.
Í áfallateyminu starfa sálfræðingar sem sinna skjólstæðingum sem eru að takast á við afleiðingar áfalla. Annars vegar er veitt bráðaþjónusta (sálfræðiþjónusta Neyðarmóttöku kynferðisofbeldis, móttöku heimilisofbeldis og Áfallamiðstöðvar) þegar um ný eða nýleg áföll er að ræða og hins vegar þjónusta fyrir fólk með áfallastreituröskun eftir eldri áföll. Störfin fela fyrst og fremst í sér áfallahjálp, greiningar- og meðferðarvinnu með fólki sem er að kljást við alvarlegar afleiðingar áfalla og stundum annan geðrænan vanda.
Um er að ræða faglega krefjandi starf á spennandi vettvangi fyrir sálfræðing sem hefur áhuga á nýsköpun og framþróun í starfi. Landspítali er þverfaglegur vinnustaður og býður upp á líflegt starfsumhverfi. Upphaf starfa er samkomulag.
Hjá Sálfræðiþjónustunni starfa um 80 sálfræðingar í ólíkum þverfaglegum teymum á ýmsum deildum Landspítala. Sálfræðiþjónustan er í stöðugri framþróun og unnið að fjölbreyttum umbótaverkefnum. Margvísleg tækifæri eru til að dýpka þekkingu í greiningu og meðferð. Lögð er áhersla á að sálfræðingar á Landspítala fái öfluga handleiðslu og símenntun í faginu.
























































