

TRAS og grunnskólinn
Á námskeiðinu fá grunnskólakennarar kynningu á TRAS málþroskaskráningu sem gerð er í leikskólum. Farið er yfir hvernig nota má niðurstöður TRAS skráninga við gerð kennsluáætlana, við val á málörvunarefni og kennslufræðilegum leiðum fyrir nemendur sem víkja frá í málþroska og lestri.
Þátttakendur fá innsýn í hvernig má setja upp stutta kennsluáætlun og hvaða þætti þarf að byrja á að vinna með út frá niðurstöðum TRAS skráningar. Einnig verður fjallað um þætti í TRAS sem beinast að athygli, einbeitingu, tjáskiptum,
samskiptum, samleik og félagsfærni og hvernig veikleiki á einum þætti getur haft áhrif á aðra þætti þroskans. Niðurstöður TRAS skráningar gagnast vel þegar unnið er með öllum börnum, sérstaklega við gerð námsáætlana vegna barna með málþroskaröskun, seinkun í málþroska, börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og börnum með ADHD.
Þátttakendur fá einnig innsýn í hvernig kennari getur gert námsumhverfið í bekkjarstofunni/svæðinu enn meira hvetjandi með því að rýna í uppröðun í stofunni/ á svæðinu með það að markmiði að auka einbeitingu og athygli nemenda og minnka truflun. Skoðað er hvernig myndræn og rituð skilaboð og vísbendingar auðvelda nemendum að skilja og fylgja eftir fyrirmælum.