

Skipulagsmál
Skipulagsmál er námskeið hugsað fyrir almenning, sveitarstjórnarfólk og opinbera starfsmenn.
Skipulagsmál eru spennandi og mikilvæg en um leið krefjandi og jafnvel flókin. Í skipulagi er sett stefna um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis og þar er landi ráðstafað fyrir mismunandi nýtingu. Teknar eru ákvarðanir og ákvæði sett um hönnun hins byggða umhverfis. Sveitarfélögum ber skylda til að taka faglegar og gagnsæjar skipulagsákvarðanir með aðkomu íbúa og hagaðila.
Á námskeiðinu verður farið yfir tilgang og markmið skipulagsgerðar, helstu hugtök í skipulagi, mismunandi gerðir skipulags og skipulagsferlið. Fjallað verður um áhrif skipulags á umhverfi og samfélag og aðkomu íbúa og annarra aðila að skipulagsgerðinni. Jafnframt er fjallað um ýmis tæki og tól sem notuð eru við skipulagsgerð.
Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu þátttakenda á skipulagsmálum. Námskeiðinu er ætlað að veita ákveðna yfirsýn um skipulagsmál, auka skipulagslæsi og færni til þátttöku í skipulagsgerð. Tekin verða dæmi til útskýringar og stuðnings á viðfangsefninu.