Stjórnkerfi verksmiðja - viðhald og umhirða
Þetta námskeið beinir kastljósinu að tæknikerfum í verksmiðjum, sérstaklega stjórnkerfum og jaðarbúnaði. Hvernig best er að reka tæknikerfin og viðhalda þeim til að tryggja stöðuga framleiðslu og langan líftíma verksmiðjunnar. Verksmiðjur eru reistar þar sem hráefni og mannskapur er til staðar til að framleiða afurð. Verksmiðjur eru alla jafna vel búnar sérhæfðum tækjum til framleiðslunnar og starfsfólk er þjálfað til að vinna við þessi tæki og viðhalda búnaðinum þannig að framleiðslan gangi vel og snurðulaust.
Um langt skeið hafa verksmiðjur verið sjálfvirknivæddar að meira eða minna leyti og í mörgum verksmiðjum kemur mannshöndin lítið að sjálfu framleiðsluferlinu nema til eftirlits, viðhalds og viðgerða á tæknikerfum. Þá er mikilvægt að verksmiðjueigendur þjálfi starfsfólk sitt og fræði um viðhald og umhirðu tæknikerfanna og ekki er síður mikilvægt fyrir starfsfólkið að sækja sér þessa þekkingu til þess að tryggja sína eigin hæfni á vinnumarkaði í stöðugri þróun.