Tími skáldanna: Skáldskapur á Sturlungaöld (STAÐ2)
Hér verður boðið upp á óvænt ferðalag um skáldskap þrettándu aldar. Sturlungaöld var tími skálda og rithöfunda sem margir voru einnig gerendur í valdabaráttu aldarinnar. Hvernig stóð á því? Á námskeiðinu verður kafað ofan í vísur ólíkra skálda, hlutverk kveðskapar í samfélaginu og hvernig hann var notaður í sögum eins og Sturlungu.
Sturlungaöld er tími skáldanna. Dróttkvæðar vísur eru heillandi og einstakar heimildir um samfélag og menningarheim þrettándu aldar. Hver vísa veitir innsýn í hugarheim og ímyndarafl skáldsins, myndmálið varpar ljósi á umhugsun þess um heiminn og formið sýnir íþrótt skáldanna. En kveðskapur var ekki ætlaður til prívatbrúks. Hann skipti máli í samfélaginu, skapaði skáldinu stöðu, var valdatæki og gat valdið usla. Skáldin náðu jafnvel eyrum erlendra konunga og ortu fyrir sjálfan himnakónginn. Vísum var fléttað inn i sögur, ekki til skrauts heldur til að koma að öðrum sjónarmiðum en prósinn leyfði.