Svansvottaðar byggingar
Námskeiðið fjallar um áskoranir og tækifæri við hönnun og byggingu Svansvottaðra bygginga. Farið verður yfir hvað Svansvottun er og einnig hvernig hægt er að byggja umhverfisvænna með tilliti til íslenskra innviða og byggingarhefðar án þess að nauðsynlega sé verið að stefna á vottun.
Tæplega helmingur af kolefnisspori heimsins tengist framkvæmdum og byggingum á einhvern máta, jarðvinnu, framleiðslu byggingarefna, byggingu húsa, rekstri þeirra eða niðurrifi. Það má því segja að ef takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga þá geti skipt sköpum að ná tökum á umhverfismálum í byggingariðnaði.
Á Íslandi hafa verið notuð tvö vistvottunarkerfi fyrir byggingar, alþjóðlega vistvottunarkerfið BREEAM og norræna umhverfismerkið Svanurinn. Opinberir aðilar, ríkið og Reykjavíkurborg hafa fyrst og fremst notað BREEAM.
Þó svo að megináherslan sé á vottunarkerfið Svaninn þá verður einnig farið yfir einstakar lausnir sem miða að því að gera hús umhverfisvænni þó ekki sé nauðsynlega stefnt að vottun. Að lokum verður bent á hvar nauðsynlegar upplýsingar er að finna til að auðvelda vistvænar framkvæmdir.
Kennari er Þórey Edda Elísdóttir, umhverfisverkfræðingur.
Komdu huganum á hreyfingu og skráðu þig í dag!