

Skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri
Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir embætti skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri laust til umsóknar.Verkmenntaskólinn á Akureyri er opinber framhaldsskóli sem var stofnaður árið 1984. Skólinn er áfangaskóli og býður upp á fjölbreytt iðn- og tækninám ásamt bóknámi til stúdentsprófs á stúdentsprófsbrautum. Boðið er upp á nám á starfsbraut, almennri braut og Íslenskubrú. Þá er einnig boðið upp á fjarnám, lotunám í iðngreinum og kvöldskóla. Starfsmenn skólans eru um 145 og fjöldi nemenda er um 1200.
Skólameistari er faglegur leiðtogi í mótun skólastarfs á grundvelli laga og aðalnámskrár framhaldsskóla. Skólameistari veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
Umsækjendur skulu hafa starfsheitið kennari, búa yfir hæfni sem stjórnandi og hafa viðbótarmenntun í stjórnun eða reynslu sem veitir sérhæfða hæfni sem snýr að skólaþróun, stjórnun, rekstri og stjórnsýslu.
Nánar tiltekið er leitað að umsækjendum sem hafa:
-
Umfangsmikla stjórnunarreynslu og leiðtogahæfni.
-
Reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileika til nýsköpunar og að stýra breytingum.
-
Þekkingu og/eða reynslu af opinberri stjórnsýslu, fjármálum, rekstri og áætlanagerð.
-
Skýra framtíðarsýn á tækifæri og áskoranir í skólastarfi á framhaldsskólastigi.
-
Framúrskarandi samskiptahæfni og færni í að skapa liðsheild á vinnustað er nauðsynleg.
