

Skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík
Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir embætti skólameistara Framhaldsskólans á Húsavík laust til umsóknar. Framhaldsskólinn á Húsavík er opinber framhaldsskóli sem var stofnaður árið 1987. Skólinn er bóknámsskóli og starfar eftir áfangakerfi. Hann býður upp á nám til stúdentsprófs á stúdentsprófsbrautum, nám á starfsbraut og almennri braut. Boðið er upp á fjarnám í öllum áföngum á stúdentsprófsbrautum skólans. Starfsmenn skólans eru um 16 og fjöldi nemenda er um 120.
Ráðning og kjör: Mennta- og barnamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Skipað er í embættið frá 1. ágúst 2025.
Um ráðningu og launakjör skólameistara fer eftir 2. gr. 12. gr. laga nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eins og að ofan greinir.
Skólameistari er faglegur leiðtogi í mótun skólastarfs á grundvelli laga og aðalnámskrár framhaldsskóla. Skólameistari veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
Umsækjendur skulu hafa starfsheitið kennari, búa yfir hæfni sem stjórnandi og hafa viðbótarmenntun í stjórnun eða reynslu sem veitir sérhæfða hæfni sem snýr að skólaþróun, stjórnun, rekstri og stjórnsýslu.
Nánar tiltekið er leitað að umsækjendum sem hafa:
-
Stjórnunarreynslu og leiðtogahæfni.
-
Reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileika til nýsköpunar og að stýra breytingum.
-
Þekkingu og/eða reynslu af opinberri stjórnsýslu, fjármálum, rekstri og áætlanagerð.
-
Skýra framtíðarsýn á tækifæri og áskoranir í skólastarfi á framhaldsskólastigi.
-
Framúrskarandi samskiptahæfni.
