Verkefnastjóri sameiningar HA og HB
Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst óska eftir að ráða skipulagðan og metnaðarfullan verkefnastjóra í tímabundið starf í 1-2 ár. Háskólarnir eru í viðræðum um sameiningu háskólanna í nýjan háskóla, sem byggir á grunni þeirra tveggja.
Verkefnastjórinn hefur það hlutverk að tryggja að unnið sé samkvæmt verk- og tímaáætlun, ásamt því að leiða vinnu við greiningu og útfærslu nýs háskóla, ef ákveðið verður að sameina háskólana tvo. Verkefnastjórinn mun starfa í sjö manna teymi sem hefur það að markmiði að fylgja eftir og samræma þá fjölbreyttu verkþætti og aðgerðir sem fram undan eru. Teymið samanstendur af rektorum, tveimur fulltrúum úr báðum háskólunum auk verkefnastjórans. Þetta er því spennandi tækifæri fyrir einstakling sem vill takast á við krefjandi verkefni í skemmtilegu og lifandi háskólaumhverfi og koma að mögulegri stofnun nýs framsækins háskóla á Íslandi.
Um er að ræða 100% starf og er starfið skilgreint sem starf án staðsetningar. Háskólarnir eru með þrjár starfsstöðvar, á Akureyri, í Reykjavík og á Hvanneyri. Verkefnastjórinn hefur aðgang að öllum starfstöðvum.
Mikilvægt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
- Leiða vinnuhóp sem samanstendur af fulltrúum háskólanna og rektorum.
- Fylgja eftir lögfræðiúttekt sem tekur fyrir samþættingu á rekstrarformi háskólanna.
- Gerð verk- og tímaáætlunar, þar sem helstu áfangar eru kortlagðir og tímasettir, ásamt því að fylgja eftir framvindu verkefnisins.
- Skipulagning og umsjón með mismunandi vinnustofum fyrir starfsfólk í stoð- og stjórnsýslu háskólanna.
- Skipulagning og umsjón með vinnustofum fyrir deildir háskólanna (Viðskipta-, Félagsvísinda-, og Lagadeild), þar sem m.a. eru mótaðar hugmyndir um nýjar námsleiðir.
- Skipulagning og umsjón með vinnustofum með öðrum deildum Háskólans á Akureyri.
- Skipulagning og umsjón með vinnustofum fyrir núverandi og fyrrverandi nemendur háskólanna.
- Umsjón og eftirfylgni með úttekt á kerfum háskólanna og samþættingu þeirra.
- Starfa með vinnuhópi sem gerir tillögur að reglum rannsóknasjóðs nýs háskóla og eflingu rannsókna.
- Fylgja eftir kostnaðaráætlun á hinum ýmsu verkþáttum t.d. vegna sameiningu kerfa.
- Önnur tilfallandi verkefni sem skilgreind eru og tengjast sameiningarferlinu.
- Framhaldspróf á háskólastigi sem nýtist í starfi.
- Reynsla af samningatækni og lipurð í samskiptum er nauðsynleg.
- Færni í að starfa í teymi sem og sjálfstætt er nauðsynleg.
- Leiðtogafærni og reynsla af því að leiða stór og krefjandi verkefni er nauðsynleg.
- Reynsla af breytingastjórnun er nauðsynleg.
- Reynsla úr háskólaumhverfinu og rekstri háskóla er æskileg.
- Reynsla og þekking af sameiningum fyrirtækja og/eða stofnana er æskileg.
- Þekking á opinberri stjórnsýslu er kostur.
- Mjög góð íslensku- og enskukunnátta, bæði í ræðu og riti.