

Starf hjá þjónustuveri
Landspítali auglýsir laus til umsóknar starf í þjónustuveri spítalans. Starfið felst í símsvörun, netspjalli og ritara- og skráningarverkefnum. Viðkomandi þarf að vera þjónustulipur, með góða samskiptahæfni og sjálfstæður í starfi, með góða tölvukunnáttu og fljótur að læra og tileinka sér hlutina. Góð íslensku- og enskukunnátta er skilyrði.
Þjónustuver og móttökur heyrir undir fasteigna- og umhverfisþjónustu sem tilheyra rekstrar- og mannauðssviði. Þjónustuver og móttökur er þjónustulunduð deild og starfa þar um 20 einstaklingar. Deildin sinnir annars vegar símsvörun og hins vegar móttökustörfum en saman vinnum við að fjölbreyttri og mikilvægri þjónustu við deildir, sjúklinga og gesti spítalans. Unnið er í náinni samvinnu við öryggisþjónustu innan vaktmiðstöðvar ásamt því að fylgjast með öryggis- og eftirlitskerfum spítalans. Starfsfólk starfar eftir þjónustustefnu þar sem markmiðið er að vera til fyrirmyndar í þjónustu. Við bjóðum gefandi starf hjá traustum vinnuveitanda, góðan starfsanda, gott mötuneyti og styttri vinnuviku.
Leitast er eftir fólki í 80-100% vaktavinnu. Unnið er á 8 tíma vöktum, dag og kvöld virka daga, og 12 tíma vöktum um helgar. Ekki eru unnar næturvaktir. Vinnuvika í fullri vaktavinnu er 36 stundir en getur orðið minni eftir samsetningu vakta. Markmið með styttingu vinnuvikunnar er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf, þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari.





















































