

Fötluð börn og farsældarlögin
Réttinda fatlaðra barna er fyrst getið í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (1989) en vendipunkturinn varð 2007 þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) var undirritaður. Kjarni SRFF er félagsleg mannréttindasýn á fötlun sem breytir grundvallar viðhorfum til fötlunar og þar með hlutverki margra fagstétta. Til stendur að lögfesta samninginn á þessu ári hér á landi og hafa nýlegar lagasetningar þegar tekið mið af ákvæðum hans svo sem lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna – farsældarlögin. Til að markmið laganna náist er mikilvægt að þjónustuveitendur hafi sameiginlegan skilning á grundvallar hugtökum þeirra, breyttri sýn á fötlun og hvað hún þýðir í faglegu starfi.
Á námskeiðinu er sjónum sérstaklega beint að þjónustu við ung fötluð börn og fjölskyldur þeirra innan og utan leikskólans. Jafnframt er horft til þeirrar innbyggðu tregðu og kerfislægu hindrana sem m.a. valda löngum biðlistum í kerfinu og standa í vegi fyrir tilætlaðri þjónustuþróun. Kynntar verða viðurkenndar starfsþróunarhugmyndir sem samræmast anda laganna og fela í sér aukna þverfaglega samvinnu, gagnkvæma fræðslu og samþættingu þjónustu.