Fjöláfalla- og tengslavandi hjá 3 - 10 ára börnum
Mikilvægasta grunnþörf barns er að tengjast tilfinningaböndum við foreldra/umönnunaraðila. Í gegnum grunntengslin fær barnið þörfum sínum fyrir kærleika, öryggi og vernd mætt, án skilyrða.
Tengslaröskun, tengslavandi og einkenni tengslavanda verður til eða þróast í gegnum misalvarlega vanrækslu á þessum grunnþörfum. Vandinn getur þróast og haft áhrif á allt nærumhverfi barnsins. Þekking og skilningur á fjöláfalla-og tengslavanda er grunnforsenda þess að hægt sé að ná til barnsins í því skyni að hafa jákvæð áhrif á líf þess.
Á námskeiðinu fjallar Jóhanna Jóhannesdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, um mikilvægi frumbernskunnar og forsendur barns sem glímir við vanda tengdan fjöláföllum og tengslum. Skoðað er hvernig hægt er að nálgast barnið af öryggi, út frá þekkingu, með kærleik og viðeigandi mörkum að leiðarljósi með það að markmiði að draga úr þeim einkennum sem barnið sýnir sem byggja á öryggisleysi og ótta.