

Samningar og samningaréttur fyrir almenning
Námskeiðið fjallar um samninga, lög sem þeim tengjast og dómar og dæmi skoðuð til skýringar. Farið verður yfir hvað samningur er, hvernig hann stofnast, í hvað samningar eru notaðir í daglegu lífi fólks og mismunandi tegundir samninga athugaðar.
Skoðað verður hvað ber að varast við samningsgerð, hvenær samningur er skuldbinandi og hvernig hægt er að ógilda samning m.a. vegna svika, nauðungar, misneytingar, óheiðarleika eða ósanngirni. Þá verða áhrif nýrrar tækni á þessu sviði athuguð, s.s. rafrænna samninga, rafrænna undirskrifta, snjallsamninga og gervigreindar.
Á námskeiðinu verður farið yfir hvað samningur er, bæði í almennum skilningi og samkvæmt lögfræðilegri skilgreiningu. Fjallað verður um hvernig gildir samningar stofnast, hverjir geti gert samninga, nauðsynleg formskilyrði í því sambandi, þ.m.t. munnlega og skriflega samninga, praktísk atriði við samningsgerð, tilgang samninga og not þeirra í daglega lífinu. Þá verður rætt um umboð sem hægt er að veita öðrum aðilum til þess að gera samninga fyrir sína hönd.